NSS natturuvernd@sudurland.is

15. febrúar 2007.

Umhverfisnefnd Alþingis

150 Reykjavík

Umsögn og athugasemdir við Frumvarp til laga um

Vatnajökulsþjóðgarð (þingmál nr. 395 ) og þingsályktunartillögu

um friðlýsingu Jökulsár á fjöllum (þingmál nr. 65).

Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands hefur kynnt sér frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð og leyfir sér hér með að gera eftirfarandi athugasemdir.

Vegna II.kafla:

Gerðar eru athugasemdir við hina flóknu stjórnsýslu sem fram kemur í frumvarpinu og lýst er yfir áhyggjum af því að hún virki neikvætt fyrir skilvirkni og árangur hvað varðar hina eiginlegu verndun náttúrunnar innan þjóðgarðsins.

Æskilegast væri að til yrði ein stofnun í landinu ”Þjóðgarðastofnun Íslands” sem færi með yfirstjórn í þjóðgörðum og á öðrum friðlýstum svæðum, í nánu samstarfi við staðbundnar rekstarstjórnir og þjóðgarðsverði.

7.gr. Æskilegt væri að landfræðileg mörk hefðu verið notuð frekar en sveitarfélagsmörk við afmörkun rekstrarsvæða. Vegna lögunar Vestursvæðis er mikil hætta er á að samgöngulegar fjarlægðir milli Norður- og Suðurlands torveldi samstarf innan svæðisráðs. Æskilegra hefði verið að Vestursvæði hefði teygt sig frá Vonarskarði að Breiðamerkurlóni eða jafnvel að Lónsöræfum í Hornafirði. Í því sambandi er vísað til núverandi fyrirkomulags í Þjóðgarðinum Skaftafelli þar sem gott samstarf er milli sveitarfélaganna Skaftárhrepps og Hornafjarðar um málefni þjóðgarðsins.

Vegna III, IV og VIII kafla:

Stjórn NSS lítur svo á að nauðsynlegt sé að almenn náttúruverndarlög gildi innan þjóðgarðsins nema þar sem lög um Vatnajökulsþjóðgarð ganga lengra hvað varðar verndun náttúrunnar. Nauðsynlegt er að taka fram að unnið skuli að skráningu og kortlagningu náttúrufars innan þjóðgarðsins, enda eru slíkar upplýsingar algjör forsenda vel unninar verndaráætlunar. Einnig að fram skuli koma að verndaráætlanir skuli unnar með lög um náttúruvernd að leiðarljósi.

Vegna marka þjóðgarðsins almennt:

Varðandi mörk Vatnajökulsþjóðgarðs sem tilgreind eru í Skýrslu ráðgjafanefndar um Vatnajökulsþjóðgarð leggur NSS á það þunga áherslu að núverandi þjóðgarðsmörk við Lakagíga ( friðlýsing frá árinu 1971) verði stækkuð þannig að allt svæðið norðan við Lakagíga að Fögrufjöllum og að þjóðgarðsmörkum við jökulrönd verði tekin inn í þjóðgarðinn strax við stofnun hans. Auk þess verði þjóðgarðsmörkin einnig stækkuð nokkuð til suðurs og austurs til að mynda stærri landslagsheild en nú er innan þjóðgarðsins. Umrætt svæði við Skaftá, norðan Kamba og við Lyngfellsgíga, er eitt fegursta og sérstæðasta vatnalandslag sem til er á Íslandi. Um er að ræða mosagróin hraun milli vatnsfylltra gíga, stöðuvatna og lækja. Þar eru einnig fornir eldgígar umluktir hrauni og vötnum og hefur Skaftá átt sinn þátt í að móta landslagið, í kjölfar Skaftáreldanna.

NSS leggja einnig mikla áherslu á að allt áhrifasvæði jökulsins suðvestan Vatnajökuls verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þannig að til verði heilstætt víðerni eða landslagsheild. Í því sambandi leggur NSS sérstaka áherslu á Langasjó, Fögrufjöll og nærliggjandi móbergshryggjasvæði sem eru einstakt landslag og jarðminjar, bæði á lands- og heimsvísu. Í því sambandi er vísað til samantektar í Skýrslu Náttúrufræði-stofnunar Íslands unnin 2006 ”Náttúrufar og náttúruminjar umhverfis Vatnajökul” .

Stjórn NSS bendir einnig sérstaklega á Núpsstaðarland sem nú þegar er á Náttúruminjaskrá og æskilegt væri að tengja Vatnajökulsþjóðgarði.

Stjórn NSS ítrekar að friðun heilstæðrar landslagsheildar suðvestan við jökuljaðarinn muni verða til þess að auka stórlega vægi og virðingu væntanlegs Vatnajökulsþjóðgarðs og stuðla um leið að sjálfbærri framþróun byggða, atvinnulífs og mannlífs þar sem sköpunarverk náttúrunnar fengi að njóta sín.

Að öðru leiti fagnar NSS þvi að frumvarpið sé komið til umræðu á Alþingi og væntir þess að háttvirt umhverfisnefnd sníði af þá hnökra sem hér að ofan hefur verið bent á.

Stjórn NSS fagnar framkominni tillögu um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum og mælir með að tillagan verði samþykkt.

Þessu hér með komið á framfæri.Virðingarfyllst,

_______________________________________

f.h. stjórnar Náttúruverndarsamataka Suðurlands

Elín Erlingsdóttir formaður.


HÖNNUN OG UMSJÓN: ÖRN ÓSKARSSON