UPPHAFSSÍÐA | ÁLYKTANIR | VERKEFNI | PISTLAR | LÖG FÉLAGSINS | ÁHUGAVERÐAR SÍÐUR OG TENGLAR


Hvers vegna ekki Norðlingaölduveitu?


Um miðbik Íslands, suður af Hofsjökli eru víðáttumikil gróðurlendi sem einu nafni kallast Þjórsárver. Framtíð Þjórsárvera hefur verið til umræðu í rúm 30 ár. Um 1970 voru uppi hugmyndir um tröllaukið miðlunarlón í verunum í allt að 593 m. hæð yfir sjó. Enn er seilst eftir vatni og landi í Þjórsárverum til að auka við orkuframleiðslu á Þjórsár-Tungnaársvæðinu og nú af meiri hörku en nokkru sinni fyrr þó umbeðið miðlunarlón hafi minnkað með tímanum vegna andstöðu við að spilla þessari perlu íslenskra óbyggða.

En hvað er það þá sem gerir Þjórsárver svo verðmæt?
Landslag og náttúra í Þjórsárverum er sérstæð og á sér ekki hliðstæðu hér á landi.
Þjórsárver eru stærsta, fjölbreyttasta og gróskumesta gróðurvin hálendisins en jafnframt ein einangraðasta. Norðan þeirra rís Hofsjökull en auðnir umlykja verin á þrjá vegu. Lífæð Þjórsárvera er vatnið sem um þau rennur í óteljandi kvíslum, lækjum, lindum, tjörnum og pollum sem næra það gróðurfarslega stórveldi sem þar lifir.

Miðað við legu og hæð yfir sjávarmáli er líffræðilegur fjölbreytileik óvenju mikill. þar eru fleiri tegundir blómplantna, mosa og fléttna en annars staðar á hálendinu. Einnig er þar að finna fjölbreyttasta votlendi miðhálendisins og langstærstu freðmýrar landsins. Þótt Þjórsárver séu þekktust fyrir fjölskrúðugt og frjósamt votlendi eru þar einnig víðáttumikið þurrlendi s.s. lyng – og víðiheiðar. Þar finnast tegundir plantna og smádýra sem eru sjaldgæfar á hálendinu.

Fuglalíf er fjölbreytt í verunum og ber þar hæst heiðargæsabyggðin en Þjórsárver eru langmikilvægasta varpland heiðagæsar í heiminum og eru þau sérstaklega mikilvæg fyrir stofninn þegar hann er í lágmarki.

Landslag í Þjórsárverum er stórbrotið, útsýnið og náttúrufegurðin er eitt af aðalsmerkjum svæðisins. Hvítur jökullinn, traustur bakvörður með skriðjöklum sínum fellum og fjöllum. Hæst ber þar Arnarfell hið mikla. Flókið mynstur árfarvega og sandeyra, votlendis, tjarna, heiða og alda mynda fjölbreytt landslag.

Þjórsárver eru landfræðilega, vistfræðilega, vatnafarslega og landslagslega ein heild, sem ekki verður aðskilin. Allar þær hugmyndir sem fram hafa komið um virkjunar- eða veituframkvæmdir á svæðinu hefðu djúpstæð og skaðleg áhrif á vistkerfi, vatnabúskap og landmótun að ótöldum hinum sjónrænu og fagurfræðilegu áhrifum.
Verndarákvæði- Íslendingar bera alþjóðlega ábyrgð.

Gullbrá (Saxifraga hirculus), einkennisplanta Þjórsárvera.

Stór hluti Þjórsárvera er friðland. Síðan 1991 hafa Þjórsárver verið viðurkennd sem alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði samkvæmt Ramsar samningnum, sem er alþjóðlegur samningur um verndun votlendis. Hlutverk hans er að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni, sem skiptir máli fyrir starfsemi vistkerfa og hringrás vatns á jörðinni. Þjórsárver falla einnig undir Bernarsamninginn sem miðast við vernd tegunda þar sem stór hluti heiðargæsarinnar á þar búsvæði. Ísland ber þar alþjóðlega ábyrgð.
Einnig er svæðið á eftirfarandi listum; Important Bird Areas in Europe, Vatnavernd Náttúruverndarráðs, Votlendisskrá Landverndar, Yfirlit yfir helstu votlendi á Norðurlöndum og Nordiske Vassdrag.

Að auki hafa sandmýravist í Eyvafeni, víðikjarrvist í Arnarfelli og rústamýravist sem er víða í verunum hátt verndargildi.
Gullbrá (Saxifraga hirculus) sem er fágæt og friðuð planta í Evrópu má kalla einkennistegund Þjórsárvera.
Í skýrslu um 1. áfanga Rammaáætlunar lenda samvegin náttúruverðmæti Þjórsárvera í efsta sæti og nýleg úttekt viðurkenndra sérfræðinga bendir til þess að svæðið gæti átt heima á heimsminjaskrá.

Norðlingaölduveitu má ekki reisa vegna þess að Þjórsárver eru óumdeilanlega eitt verðmætasta svæði á hálendi Íslands og hníga öll rök að því að það sé eitt brýnasta verkefni í náttúruvernd á Íslandi í dag að standa vörð um þau. Ekki eru fyrir hendi neinir svo ríkir hagsmunir sem réttlæta að verunum verði spillt á nokkurn hátt. Því ber að láta ógert allt það sem hindrar það að Þjórsárver njóti viðeigandi verndar.


HÖNNUN OG UMSJÓN: ÖRN ÓSKARSSON