27. september 2006.

Skipulagsstofnun

Hr. Jakob Gunnarsson

Laugavegi 166

150 Reykjavík

Náttúruverndarsamtök Suðurlands gera eftirfarandi athugasemdir um tillögur að matsáætlunum fyrir mögulegar jarðvarmavirkjanir á Ölkelduhálsi og Hverahlíð í sveitarfélaginu Ölfusi.

Náttúruverndarsamtök Suðurlands vilja koma á framfæri að ítarlegar verði fjallað um útivist í matsáætluninni. Bent er á að í dag er veruleg nýting margvíslegra útivistarmöguleika á umræddu svæði, bent er hér á að margar gönguleiðir liggja um svæðið bæði af Hellisheiði, úr Hveragerði og af Þingvallavatns/Grafningssvæðum. Einnig er bent á að um svæðið liggja hefðbundnar og sögulegar reiðleiðir auk þess að hestaferðaþjónustufyrirtæki nýta svæðin í starfsemi sinni og eru svæðin í sumum tilvikum grunnur að starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu. Bent er jafnframt á mikilvægi og verndargildi mjög sérstakra hverasvæða á Ölkelduhálsi, Hengli og í Hverahlíð. Að framansögðu er ljóst að Hverahlíð og Hengladalirnir og Ölkelduháls hafa verulegt útivistar- og fræðslugildi en jarðvarmavirkjun á Ölkelduhálsi myndi óhjákvæmilega rýra útivistargildi þessara svæða. Líklegt er að sjónræn áhrif af virkjun við Hverahlíð gæti orðið áberandi ef virkjunin og línuskógur henni tilheyrandi, myndi blasa við öllum sem fara um Hellisheiði.

Bent er jafnframt á að sjónræn umhverfisáhrif af þessum framkvæmdum verði líklega veruleg um allt svæðið vegna mannvirkja til orkuflutninga, ef áætlanir Landsnets um línulagnir fyrir umræddar virkjanir nái fram að ganga óbreyttar án nokurra áætlana um notkun strengja til orkuflutninga í jörðu, en sem kunnugt er hefur tækniþróun verið hröð á þeim vettvangi samfara því að kostnaðarþættir hafa minnkað verulega..

Fyrirhuguð vinnslusvæði á Ölkelduhálsi eru á vatnaskilum til norðurs og suðurs. Kanna þarf ítarlega og með óyggjandi hætti möguleg áhrif jarðborana og niðurdælingu afallsvatns bæði á vatnasvið Þingvallavatns, sem og möguleg áhrif á vatnsverndarsvæði í Hveragerði og í Ölfusi.

Þessu hér með komið á framfæri.

Virðingarfyllst

f.h. stjórnar Náttúruverndarsamataka Suðurlands

Elín Erlingsdóttir formaður
NSS - Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Giljatanga 3 – Laugalandi– 851 Hella. www.nss.is