UPPHAFSSÍÐA | ÁLYKTANIR | VERKEFNI | PISTLAR | LÖG FÉLAGSINS | ÁHUGAVERÐAR SÍÐUR OG TENGLAR


Erfðabreyttum lífverum sleppt út í sunnlenska náttúru
- án óháðs umhverfismats, án samráðs við heimamenn

Sunnlendingar eru smám saman að byrja að átta sig á því að yfirvöld hafa nú í tvígang heimilað íslensku líftæknifyrirtæki, ORF Líftækni, að sleppa erfðabreyttum lífverum út í sunnlenska náttúru. Í báðum tilvikum er um að ræða erfðabreytt bygg sem rækta á til framleiðslu á próteinum fyrir lyfjaframleiðslu. Ræktunin hófst vorið 2003 og fer fram á landi í eigu Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti. Leyfin veita ORF heimild til allt að 30 hektara ræktunar á erfðabreyttu byggi sem hefur að geyma framandi gen og erfðabreyta á enn frekar síðar þannig að það framleiði lyfvirk efni.

Umhverfisstofnun virðist ekkert samráð hafa haft um þessar aðgerðir við heimamenn hér á Suðurlandi, enda veita stjórnvöld leyfi til erfðabreyttrar ræktunar samkvæmt reglum sem eru miklu slakari en gilda í öðrum Evrópulöndum. Hvorki var krafist óháðs umhverfismats né rannsókna á áhrifum innskotnu efnanna á dýr og fugla, áður en ræktun var leyfð, en rætt um möguleika á slíkum athugunum síðar.

Hlutlægar upplýsingar hefur skort um þessi mál, því nær engin opinber umræða hefur farið fram og stjórnvöld virðast ekki hafa kynnt sér reynslu annarra þjóða af erfðabreyttri framleiðslu. Í Norður Ameríku hefur erfðabreytt ræktun mengað mjög út frá sér og auk þess leitt til aukinnar eiturefnanotkunar. Læknar hafa lýst áhyggjum af því að aukin tíðni ofnæmis kunni að tengjast neyslu erfðabreyttra matvæla. Heilsurannsóknir á dýrum benda til skaðsemi erfðabreyttra afurða, t.d. breytinga á líffærum og æxlismyndunar.

Erfðatækni er meðal róttækustu tæknibyltinga sem um getur og má að einhverju leyti líkja við kjarnorku að áhrifamætti. Hún er að sama skapi gífurlega áhættusöm, m.a. vegna þess hversu ónákvæmar erfðabreytingarnar eru, vegna dreifingar og blöndunar við aðrar lífverur, og vegna vísbendinga um skaðleg heilsufarsáhrif af neyslu erfðabreyttra afurða. Áhrif hennar eru óafturkræf, því um leið og erfðabreyttum lífverum hefur verið sleppt út í náttúruna (eða þær sloppið út fyrir veggi tilraunastofu) verður útilokað að uppræta þær, t.d. ef skaðleg áhrif koma í ljós.

Þótt líkur á því að erfðabreytta byggið víxlfrjóvgist við aðrar plöntur séu ekki miklar telja sérfræðingar ekki unnt að útiloka það til lengri tíma litið, t.d. við melgresi eða annað bygg. Hinsvegar er útilokað, einkum eftir því sem ræktunarsvæðin stækka, að koma í veg fyrir það að fuglar tíni upp fræin, eitthvað dreifist fyrir slysni með mönnum og tækjum, eða að búfé sleppi einstaka sinnum inn á akrana. því umfangsmeiri sem ræktunin er, þeim mun hættara er við því að erfðabreytt bygg með lyfvirkum efnum berist í annað fræ, fóður eða matvæli, til dæmis bygg sem notað er til fóðrunar eða manneldis Ekki verður unnt að útiloka mengun jarðvegs og grunnvatns, en erfðabreyttu efnin eru í öllum plöntuhlutum, þ.m.t. stilkum og rótum, og stór hluti þess verður jafnan eftir á ökrunum. Framandi gen og þar með lyfjaprótein kunna að berast í fæðukeðjuna vegna afráns skordýra og jarðvegslífvera, jafnvel þótt skordýraeitur væri notað.
Náttúruverndarsamtök Suðurlands lýsa þungum áhyggjum af þessari starfsemi og hugsanlegum áhrifum hennar á ímynd héraðsins og þeirra atvinnuvega sem Sunnlendingar byggja einkum afkomu sína á, landbúnaðar og ferðaþjónustu. Samtökin taka undir kröfur Búnaðarsambands Suðurlands, Landverndar, Neytendasamtakanna og fleiri aðila um að leyfisveitingar til útiræktunar erfðabreyttra plantna verði stöðvaðar uns óháðar rannsóknir hafi verið gerðar, sýnt hafi verið ótvírætt fram á skaðleysi slíkrar ræktunar, og að almenn umræða hafi farið fram um málið. Náttúran og öryggi neytandans eiga að njóta vafans.

Fréttagrein frá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands.


HÖNNUN OG UMSJÓN: ÖRN ÓSKARSSON